Föstudagurinn 27. nóvember

Jóladalurinn

Aðventan í Laugardalnum býður upp á eitthvað fyrir alla fjölskylduna. Í fallegu umhverfi getur fjölskyldan átt saman skemmtilegan dag; kíkt á dýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, skautað í kringum jólatré í Skautahöllinni, heimsótt Ásmundarsafn, gengið um Grasagarðinn, fengið sér heitt kakó og jólalegar veitingar á Flórunni og stungið sér í Laugardalslaugina undir stjörnubjörtum himni. Sjálfur jólakötturinn hefur svo komið sér vel fyrir í Húsdýragarðinum þar sem hann býr yfir jólin. Óargadýrið bregður sér oft af bæ, fer í göngutúr um Laugardalinn og kemur þá víða við og veldur usla. Og ef vel er að gáð má sjá spor eftir jólaköttinn og kannski glittir í glyrnur í glugga…  

Dýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eru óðum að komast í jólaskap enda garðurinn orðinn jólalegur með jólaseríum á útihúsunum auk þess sem selalaugin er vel skreytt sem fyrri ár. Aldagamall, fallegur og jólaskreyttur hestvagn tekur á móti gestum í móttökuhúsinu.  Dýrin vilja vekja athygli á því að opið er alla daga ársins í garðinum.  Þó er opnunartíminn aðeins styttur á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag þegar opið er frá kl. 10 til 12 og lokað í Kaffihúsinu en aðra daga er opið frá 10 til 17 og opið í Kaffihúsinu.  

Í garðinum hefur verið útbúið harðlæst athvarf þar sem jólakötturinn getur hvílt lúin bein en fyrir síðustu jól voru nokkur læti í honum þar sem hann lá í fleti sínu. Hann olli einnig nokkrum usla á næturbrölti sínu um Laugardalinn. Búist er við að hann verði kominn í fleti sitt við upphaf aðventu (28.nóv).  

Önnur dýr garðsins verða að sjálfsögðu heima við og þiggja heimsókn frá stilltum og prúðum börnum og foreldrum, ömmum, öfum, frænkum og frændum. Dýrin fá jólatuggu, jólasíld og hvað sem við á og jólalegt tilboð verður handa mannfólkinu í kaffihúsi garðsins.   

Hópum og öðrum sem koma í garðinn virka daga er að boðið að fara ferð í hringekjunni frá kl. 10 til 12 og að auki verður opið í hringekju og lest um helgar frá upphafi aðventu og fram að jólum ef veður og færð leyfir.  

Ókeypis er í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn fyrir nemendur og starfsfólk leik- og grunnskóla auk frístundaheimila Reykjavíkur á skóla- og frístundaheimilatíma. Aðrir skólar greiða aðgangseyri skv. gjaldskrá.

Þá er Jólatilboð til hópa í kaffihúsi garðsins þar sem heitt kakó og uppáhalds jólasmákökur Stúfs eru á 350 krónur á mann. Starfsfólk garðsins verður í kisulegu jólaskapi og jólatónlist ómar. Tekið verður á móti hópum í heitt kakó og smákökur frá klukkan 10:00 virka daga frá 30.nóvember og fram að jólum.

Bóka þarf fyrirfram í kakó og smákökur hjá starfsfólki Kaffihúss í síma 411-5915 / 411-5914.  

 

Kötturinn Grágoggur á lítið skylt með Jólakettinum enda hvers manns hugljúfi.  

Vinamorgnar með breyttu sniði

Árskorthafar undanfarinna ára eru farnir að kannast vel við fyrirkomulag svokallaðra vinamorgna í Fjölskyldu- og húsdýragardinum. Í ár ætlum við að breyta til og í staðinn fyrir að bjóða upp á skítmokstur og almenn þrif í útihúsunum viljum við bjóða árskorthöfum með núgildandi kort að bjóða fram krafta sína við morgungjafir allar helgar í nóvember (fyrsta helgina er 31.október og 1.nóvember). Hafist er handa við að gefa hreindýrum kl. 10:45, síðan selum kl.11:00 og að endingu refum og minkum kl.11:30. Inn á milli gjafa munu dýrahirðar kynna árskorthafa fyrir öðrum íbúum garðsins. Ekki þarf að panta fyrirfram eins og áður hefur verið, aðeins bjóða fram krafta sína við dýrahirði á vakt sem tekur þennan rúnt ásamt aðstoðardýrahirðum alla morgna um helgar í nóvember. 

 

 

Dagur íslenskrar náttúru 16.september

Í tilefni dagsins verður opið inn í Hafrafell þann 16.september þar sem búið verður að setja upp sýningu með broti af þeim uppstoppuðu fuglum sem til eru í safnkosti garðsins. Fyrir fimm árum fékk garðurinn til varðveislu töluverðan fjölda af uppstoppuðum dýrum sem áður voru í eigu Þórarins Þorkels Jónssonar endurskoðanda sem verða uppistaðan í sýningunni auk annara muna. 
Fræðslufulltúrar garðsins verða á staðnum en þær munu bjóða upp á hænuegg orpin í garðinum, bjóða gestum að gefa hænum garðsins að éta auk þess að vera til staðar til skrafs og ráðagerða. 
Skólahópar sem ætla að leggja leið sína í garðinn þennan dag eru hvattir til að týna allt það rusl sem á vegi þeirra verður en á staðnum verða laupar að fyrirmynd hrafnslaupa sem allt ruslið verður sett í. Skólahópunum sem koma með nesti verður frjálst að nota laupana til að borða í annars er nestisaðstaða með stólum og borðum í tjaldinu við veitingahús.

Uppskera býbænda, Hálandaleikar og síðasta opnunarhelgi leiktækjanna framundan.

Uppskeruhátíð býflugnabænda verður haldin í veitingatjaldi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins laugardaginn 5. september milli kl 14.00 og 16.00. Býbændur sýna sig og sjá aðra, gefa gestum kost á að fræðast um býrækt ásamt því að bragða og kaupa íslenskt hunang.  Þá verður ýmis búnaður tengdur býflugnarækt sýndur og lifandi býflugur til sýnis. Kvenfélagasamband Íslands verður með sultukynningu á sama tíma.  Berjaspretta hefur verið misgóð eftir landshlutum þetta árið en vonandi að allir hafi fengið sitt og húsmæður og –feður geta því leitað upplýsinga í raðir félaga í Kvenfélagasambandinu til að nýta berin.  Húsfreyjan, tímarit Kvenfélagasambands Íslands mun liggja frammi. 

Íslandsmót í Hálandaleikum verður laugardaginn 5.september og hefst kl. 12:00 í garðinum. Karlar keppa í 7,3 kg steinkasti, 12,6 kg lóðkasti á vegalengd, 10 kg sleggjukasti, 25 kg lóðkasti yfir rá og staurakasti. Konur keppa í 4 kg steinkasti, 6,6 kg lóðkasti á vegalengd, 7,3 kg sleggjukasti, 12,6 kg lóðkasti yfir rá og staurakasti. Sigurvegarar verða krýndir Íslandsmeistarar 2015. Það eru 9 karlar og 5 konur skráð til leiks og þar á meðal er Íslandsmeistari karla 2014, Heiðar Geirmundsson og  Íslandsmeistari kvenna 2014, Þóra Þorsteinsdóttir. Mótið hefst á sleggjukasti, síðan verður steini kastað, lóði á vegalengd, lóði yfir rá og endað á staurakasti og reiknað er með að mótinu ljúki um kl. 15:30 með verðlaunaafhendingu. Yfirdómari er Pétur Guðmundsson.

Sunnudaginn 6.september munu fræðslufreyjur garðsins, Unnur Sigurþórsdóttir og Lilja Björk Vilhelmsdóttir bjóða gestum upp á leiðsögn og segja sögur úr garðinum í tilefni af 25 ára afmælisári Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.   Leiðsögnin hefst kl. 13:00 við miðasöluna. 

Þá er þetta síðasta helgin sem öll leiktækin eru opin í ár.  Vetraropnun hefur tekið gildi og verður opið alla daga kl: 10 -17 í allan vetur.

Vetraropnun

Næstkomandi mánudag (24.ágúst) breytist opnunartími garðsins frá því að opið sé frá 10-18 alla daga í að opið verður 10-17 alla daga og tækjum verður lokað. Tækin verða hins vegar í gangi síðustu helgina í ágúst (29. og 30.ágúst) og fyrstu helgina í september (5.og 6.sept) eftir það verða þau flest sett í vetrardvala. Starfsemi garðsins breytist aðeins á veturnar en þá er kjörið að koma og heimsækja dýrin og nýta Fjölskyldugarðinn til útivistar. 

 

 

Athugið

Ekki er leyfilegt að koma með gæludýr inn í garðinn.

Öll umferð hjóla, hlaupahjóla, skauta, hjólabretta og annarra slíkra farartækja er ekki leyfð innan garðsins.

 

Pets are not allowed in the park.

Bicycles, scooters, skates, skateboards and other such vehicles are not allowed inside the park.

Skemmtimiðar

Vetraropnun
Mánudaginn 24. ágúst hófst vetraropnun í garðinum og hafa leiktækin lagst í árlegan vetrardvala.

Skemmtimiðar 
1 miði 300 kr
10 miðar 2.400 kr
20 miðar 4.500 kr
Dagpassi 2.080 kr*

*Aðgangseyrir er ekki innifalinn í verði dagpassa.

Aðgangseyrir

Börn 0-4 ára - frítt
Börn 5-12 ára - 600 kr
13 ára og eldri - 800kr
Öryrkjar - frítt
Ellilífeyrisþegar - frítt
Veittur er 10% afsláttur af aðgangseyri
ef greitt er fyrir 10 eða fleiri í einu.
 
Einstaklingsárskort - 9.300 kr
Fjölskylduárskort - 18.100 kr
Plús* á Fjölskylduárskort - 9.300 kr hver plús 
*(Plús - bjóddu hverjum sem er með í garðinn)
 

Aðventuopnun

Opið alla daga frá klukkan 10-17. 

Nema 24., 25., 31.desember og 1. janúar 2016 þá er opið frá 10-12.

Opnunartími Kaffihúss

Virkir dagar: 11-16:30

Helgar: 10-16:30

Lokað 24., 25., 31.desember og 1. janúar 2016