Tónleikar til heiðurs selnum Snorra

Selurinn Snorri  forvitinn um nafna sinn

Sunnudaginn 1.september verður selagjöfin klukkan fjögur með breyttu sniði. Þá ætlar hinn mennski fiðluleikari Snorri að koma og leika nokkra hugljúfa tóna til heiðurs selinum Snorra en sá fyrrnefndi er skírður í höfuðið á þeim síðarnefnda. Þannig er mál með vexti að þegar mennski Snorri fæddist voru foreldrarnir ekki með drengjanafn á takteinum og leituðu til eldri bræðra Snorra um nafn litla bróður. Þar sem þeir eldri voru þá tíðir gestir í FHG og voru sérlega hrifnir af selinum Snorra þá stóð ekki á svarinu, Snorri skyldi barnið heita. Barnið fékk nafnið Helge Snorri Seljeseth og nú 24 árum síðar ætlar hann að heiðra nafna sinn og spila fyrir hann nokkur vel valin lög og tóna við selagjöfina klukkan fjögur.