Heimsókn frá Móðurmáli

Fjölskyldugerð dýranna

Undanfarna tvo laugardaga hafa nemendur Móðurmáls, kennarar þeirra og fjölskyldur heimsótt Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.  Þar hafa þau fræðst um dýrin sem hér búa og um leið nýtt tækifærið og frætt gesti garðsins um tungumál sín.  Það gerðu þau með því að hengja upp fjölskyldugerðir dýranna á sínu móðurmáli öðrum til fróðleiks. 

Móðurmál - samtök um tvítyngi eru regnhlífarsamtök sem hafa sett sér eftirfarandi markmið:

  • Að kenna börnum þeirra móðurmál
  • Að styðja við móðurmálshópa og móðurmálskennara
  • Að vinna saman með foreldrum fjöltyngdra barna til að skapa börnunum tækifæri til að læra þeirra móðurmál
  • Að taka þátt í rannsóknum um fjöltyngi og móðurmál
  • Að þróa móðurmálskennslu
  • Að styðja við virkt tvítyngi í samfélaginu

Móðurmál hefur Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til hliðsjónar í sínu starfi.    Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja meginstoða sjálfbærrar þróunar; hinna efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir út undan. 

Skólaárið 2019-2020 stendur Móðurmál fyrir sameiginlegu verkefni er lýtur að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og fjöltyngdum börnum á Íslandi. Í þessu verkefni vinnur hver hópur að einu heimsmarkmiði og að lokum kynna börn verkefni sín fyrir hönd móðurmálshópa sína á sameiginlegri barnaráðstefnu sem haldin verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í vor. 

Einnig er hugmyndin að fá Móðurmál í garðinn í desember í tengslum við jóladagskrá garðsins.  Þá munu þau kynna mismunandi jólahefðir og –siði.