Hreindýrin leggja háskólasamfélaginu lið

hreindýr að vetri

Hreindýrin í garðinum hafa eignast nýja vinkonu, sú heitir Katarzyna Anna Kakol en er kölluð Kasia.  Kasia kláraði BSc nám í líffræði við Háskóla Íslands árið 2019 og stundar núna mastersnám í háskólanum í Linköping í Svíþjóð. 

Í Svíþjóð er hún í námi sem kallast atferlis- og dýrafræði.  Þar er mikil áhersla lögð á vellíðan dýra og þar á meðal dýra í dýragörðum. Verkefni sem hún vinnur hér í garðinum er í tengslum við nám hennar og snýst um að skoða atferli hreindýranna og hvernig hægt er að auka vellíðan þeirra. Kasia ætlar að reyna að gera það með því að auðga umhverfi þeirra en dýrahirðar hafa verið að vinna að því víða í garðinum og ætla að halda áfram í þeirri vinnu.  Því fellur verkefni Kasiu vel að þeim verkum. 

Kasia ætlar að beita þremur mismunandi tegundum af auðgun. Áþreifanlega auðgun (tactile enrichment) t.d með því að hafa kústhausa í boði fyrir dýrin til að nudda sér upp við, lyktar auðgun (olfactory enrichment) t.d að nota ilmolíur á timburkubba á þeirra svæði sem þau geta þefað að og að lokum er fæðu auðgun (food enrichment) til dæmis að gefa þeim eitthvað að borða sem er frábrugðið þeirra hefðbundna mataræði. 

Næstu tvær vikur ætlar hún að skoða almenna virkni hreindýranna í núverandi umhverfi og mun bera það saman við virknina sem mun eiga sér stað þegar ný tegund af auðgun verður kynnt fyrir þeim. Kasia vonast til þess að sjá aukna virkni og minna af því sem við köllum "resting/passive state".

Virkni er eitt af því helsta sem er notað þegar skoðað er vellíðan dýra, þ.e.a.s hreyfing, samskipti milli dýranna og fæðuöflun. 

Samskonar rannsóknarverkefni hefur meðal annars verið unnið á fílum, öpum og tigrisdýrum með góðum árangri.