Jólaköttur, jólarúningur og jólasveinar.

Ljótur er hann?

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er kominn í jólabúning og starfsfólk óðum að komast í jólaskap. Opið verður alla daga í desember frá kl. 10 til 17 nema aðfangadag, jóladag og gamlársdag þegar opið verður frá kl. 10 til 12.

Fyrir nokkrum árum fór Jólakötturinn að taka upp á því að mæta í garðinn á aðventunni og angra dýrin sem hér búa að nóttu til. Fyrsta árið vissi starfsfólk ekki sitt rjúkandi ráð hvernig bregðast skyldi við óargadýrinu en hefur undanfarin ár byggt kofa fyrir hann að dvelja í einn með sjálfum sér í staðinn fyrir að angra aðra. Kofinn hefur verið á nokkrum stöðum innan garðsins og hefur nú verið reistur inni í sjoppunni í Fjölskyldugarðinum. Ef Jólakötturinn heldur áætlun undanfarinna ára má búast við að hann mæti hingað 1.desember og hugrakkir gestir geta þá kíkt á hann í hreysinu alla daga fram að jólum þegar hann vanalega fer aftur til baka til fjalla.

Rúningur í fjárhúsinu er orðinn fastur liður í aðventudagskrá garðsins og sauðfé garðsins verður rúið sunnudaginn 2.desember og hafist verður handa kl. 13:00. Eins og oft áður verður það Guðmundur Hallgrímsson sem rýir og með honum í för verður fólk frá Ullarselinu á Hvanneyri sem mun spinna úr ullinni jafnóðum og hún kemur af fénu.

Jólasveinar hafa einnig boðað komu sína í garðinn allar laugar- og sunnudaga fram að jólum kl. 14:00. Þeir munu hitta gesti í móttökuhúsinu og draga aðra sem eru í garðinum með sér á skemmtun í skálanum við Kaffihúsið.

Að lokum vill starfsfólk garðsins minna alla á að vera góð við dýr og menn og njóta samverustunda við vini og ættingja á aðventunni. Og auðvitað að gleyma ekki smáfuglunum.