Slöngur

Flækja er sú eina

Frá árinu 2008 hefur Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn haft til sýnis smádýr frá framandi slóðum í sérstakri deild í garðinum. Þarna er um að ræða dýr sem koma frá vistkerfum hitabeltisins þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki er hvað mestur.
Þar á meðal eru fulltrúar þeirra tveggja fylkinga dýraríkisins sem ekki finnast í íslenskri náttúru, skriðdýr og froskdýr, m.a. eðlur og slöngur.
Dýrin voru flutt til landsins 2008 og voru þar á meðal tvær tegundir eðla og tvær slöngutegundir. Annars vegar var um að ræða pýton kyrkislöngur og hins vegar mjólkursnáka. Kyrkislöngurnar reyndust sýktar af sníkjudýri og lifðu einungis í skamman tíma eftir komuna. Mexíkanski mjólkursnákurinn Flækja er nú eini snákurinn sem enn er til sýnis í garðinum og fylgir mynd af Flækju þessu innleggi.

Tilvist húsdýragarðsins hefur frá fyrstu tíð byggst á fræðsluhlutverki hans. Eitt að því sem við teljum mikilvægt að kynna okkar gestum er líffræðilegur fjölbreytileiki og er það einmitt tilgangur þessarar deildar garðsins. Sú staðreynd að þessar tvær stóru dýrafylkingar eiga sér ekki fulltrúa í náttúru Íslands ólíkt því sem gerist í löndunum í kringum okkur gerir þau sérlega áhugaverð þegar fræðsla er annars vegar. Árlega sækir enda fjöldi nemenda námskeið hjá okkur til þess að kynnast þessum framandi dýrum - rétt eins og börn eiga kost á í nágrannalöndunum.

Jákvæð umsögn Umhverfisstofnunar um innflutning nú er eitt skref í flóknu innflutningsferli dýra til landsins sem garðurinn fylgir til hlýtar. Fyrirhugaður Innflutningur er því eðlilegt framhald af eftirsóttu og vel heppnuðu fræðslustarfi sem rekið hefur verið með þennan flokk dýra í rúman áratug.