Hænsnin í garðinum fá vottun

Landnámshani

Fulltrúar úr stjórn Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna (ERL) kíktu í heimsókn á dögunum til að kíkja á hænsnin í Húsdýragarðinum. Tilgangur heimsóknarinnar var að fá úr því skorið að í garðinum væru arfhrein landnámshænsni.

Það vakti forvitni gesta sem voru í smádýrahúsinu á meðan á skoðun þeirra stóð hvað væri í gangi en hænurnar og haninn voru skoðuð gaumgæfilega og þá sérstaklega á löppum og eyrum. Í ljós kom, það sem starfsfólk þóttist vita fyrir, að haninn Nonni Kóngur og hænurnar hans sem allar bera nafnið Lotta eru arfhrein íslensk landnámshænsni og hafa fengið vottað skjal því til staðfestingar.

Markmið félagsins er að halda landnámshænsnastofninum hreinum, heilbrigðum og litfögrum og að stuðla að fræðslu fyrir eigendur og ræktendur landnámshænsna auk þess að afla henni vinsælda meðal landsmanna.
Félagið var stofnað árið 2003 og á þeim árum sem félagið hefur starfað hefur náðst góður árangur. Landnámshænan er nú þekkt innanlands sem utan og áhugi á ræktun hennar hefur aldrei verið meiri.

Heimasíða félagsins www.haena.is hefur að geyma skemmtilegan fróðleik um þessa skemmtilegu fiðraða félaga. 
Félagið heldur einnig úti síðu hér á facebook - https://www.facebook.com/landnamshaena/

Hænur garðsins hafa ekki verið þekktar fyrir þolinmæði þegar kemur að liggja á eggjum og því voru tekin nokkur egg fyrir um þremur vikum og sett í sérstaka útungunarvél og á næstu dögum er von á því að landnámshænuungar skríði úr eggjum. Sambýlingar landnámshænsnanna dúfurnar eru aftur á móti þolinmóðari þegar kemur að því að liggja á eggjunum og nokkrir dúfuungar hafa nú þegar litið dagsins ljós.