Hringanórinn Kári í Húsdýragarðinum


Núverandi staðsetning

Hér á kortinu fyrir ofan má sjá ferðalag Kára eftir dvöl sína í garðinum. Kortið uppfærist á um fjögurra tíma fresti. Nákvæmni mælinga eykst með fjarlægð frá landi. Þá er þéttleiki gervitungla yfir þessu svæði mjög mismunandi eftir tíðum sólarhrings og því má búast við að boð berist ekki alltaf.

Nýjustu fréttir af Kára

27. maí 2020

Nú er kópurinn Kári búinn að vera á ferðinni í tæpan mánuð en honum var sleppt í Ísafjarðardjúpi þann 2. maí. Eftir að hafa synt nokkuð rakleiðis til norðurs frá Vestfjarðarkjálkanum að ísröndinni á Grænlandssundi snéri hann ögn til suðurs aftur og tók ansi marga hringi. Á þessum kafla einkenndist ferð hans af beinum köflum og síðan hringsóli á nokkurra kílómetra svæði í einu. Þann 12. maí tók hann hins vegar stefnuna aftur til vesturs og Norður og kom að strönd Grænlands þann 18 maí. Þar sem kortið sem ferillinn hans er á er nokkuð gróft virtist sem hann hefði skriðið á land og ýmsir fóru að hafa áhyggjur af heilsufari hans og þá sérstaklega með tilliti til ísbjarna. En Kári lenti augljóslega ekki í neinum ísbjarnarblús og hélt afram Norður eftir strönd Grænlands. Eftir að hafa tekið nokkra hringi hefur hann nú aftur tekið stefnuna Norður og á einungis um 180 km eftir að Scoresbysundi á Grænlandi og stutt er í að hann komist yfir 69. breiddargráðu. Að frádregnum smærri lykkjum er sundferð Kára nú orðin um 1000 kílómetra löng. Á þessari ferð hefur hann aldrei farið svo lengi upp á land að mælitækin á honum hafi numið slíkt. Hann er nú í köldum sjó (-1°C) og séu gervihnattarmyndir skoðaðar sést að hafísinn umhverfis hann er sífellt að þéttast. Á myndinni sem unnin er upp úr gervihnattarmynd frá Veðurstofu Íslands má sjá ferð Kára s.l. mánuð.

Ferðalag Kára til þann 27.maí

8. maí 2020

Nú er Kópurinn Kári búinn að vera á flandri í sex daga og synt á þeim tíma meira en 350 km leið. Talsverður hluti leiðarinnar eru að vísu ýmsar lykkjur og hringir, en slíkt sund hefur einkennt ferði Kára s.l. tvo sólarhringa. Mögulega er Kári kominn í æti og gæti það skýrt þessa hegðun. Í upphafi synti Kári nokkuð rakleiðis út Ísafjarðardjúpið og tók síðan beina stefnu í Norður að ísjaðrinum og yfir heimskautsbauginn. Því næst sveigði hann til Vesturs og hefur verið á þeirri leið síðan. Hann er nú staddur u.þ.b. miðja vegu á milli Íslands og Grænlands.

Hafís í kringum Kára
Mynd - Staðsetning Kára í íshrönglinu

Auk staðsetningar Kára höfum við fylgst með hitastiginu í sjónum sem hann fer um. Á mörkum lengdarbaugs 23°8‘og 24°3‘ Vestur féll hitastig sjávar úr 5,6°C í 0,85°C eða um 4,75°C. Á þessum slóðum eru mörk N-Atlantshafsstraumsins sem er hlýr og A-Grænlandsstraumsins sem er kaldur. Auk þess sem við vitum að hafís er á svæðinu sem kælir að sjálfsögðu efsta lagið í sjónum. Hér fyrir neðan er samsett ný gervihnattarmynd af rekísnum NV af landinu og staðsetningu Kára miðað við hana.

Hitastig
Mynd - Graf af hitastigi sjávarins í kringum Kára

Saga Kára

Kópur finnst á Suðurnesjum

Þann 17. janúar óskaði Lögreglan á Suðurnesjum eftir liðsinni garðsins í kjölfar þess að selskópur hafði gert sig heimakominn í slippnum í Njarðvík. Hafði hann verið að skríða um þar sem honum var augljós hætta búin. Þegar dýr eru sjúk eða særð og farin að þvælast um meðal manna í umhverfi sem þeim er ekki eðlislægt getur hins vegar reynst óhjákvæmilegt að grípa inn í.

Fréttir voru fluttar af þessu á sínum tíma og mikil umfjöllun varð á samfélagsmiðlum. Frétt á vef garðsins og á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Lögreglan sækir selinn
Lögreglumaður á Suðurnesjum með Kára eftir að hann fannst í janúar.

Ástand kópsins

Við komuna í Húsdýragarðinn var kópurinn um 7,5 kg að þyngd og mjög þrekaður. Selurinn reyndist af tegundinni Hringanóri (Phoca Hispida), en sú tegund lifir á ís umhverfis Norðurpólinn. Þekkt er að ungir hringanórar, sérstaklega karldýr (brimlar), leggist í flakk og hafa þeir fundist af og til, sérstaklega við norðanvert landið. Í sömu viku fannst raunar annar kópur sömu tegundar við Vesturströnd Írlands - sá fyrsti í meira en 100 ár.

Selurinn við komu í garðinn
Kári var mjög horaður við komuna og einungis 7,5 kg.

Kópurinn var að öllum líkindum úr kæpingu síðasta árs, þ.e. fæddur vorið 2019. Var hann því líklega 7-8 mánaða gamall við komuna í garðinn. Kópar þessarar tegundar eru á spena í allt að 8 vikur og eru allt að 20 kg þegar þeir hætta á spena. Það er því ljóst að Kári hafði tapað stórum hluta líkamsþyngdar sinnar frá því að hann hætti á spena.

Við skoðun dýralæknis kom í ljós að hann var með bakteríusýkingu í augum, sérstaklega í vinstra auga. Var sú sýking meðhöndluð strax. Tekið var saursýni sem skoðað var á rannsóknarstofu í sníkjudýrafræði á Keldum. Kom þá í ljós að Kári var sýktur af lungnaormi af tegund sem ekki hefur greinst hérlendis áður.

Lirfa lungnaormsins
Lirfa lungnaorms sem greinist í saursýni frá Kára.

Þekkt er að selir beri í sér ýmsa sníkjuorma og almennt má segja að sníkjudýr hafi verri áhrif á hýsla sína eftir því sem líkamlegt ástand þeirra er verra. Lungnaormar geta valdið bólgum í lungnaberkjum og lungum sela og dregið þannig úr möguleikum þeirra á að kafa og þar með til þess að afla sér fæðu. Kópnum var veitt lyfjameðferð gegn sníkjuormum, bæði í meltingarvegi og lungum. Líklegt verður að teljast að í þessu tilfelli hafi ormasýkingin verið kópnum íþyngjandi enda Kári orðinn lasburða og horaður. Fyrsta kastið dvaldi Kári innandyra og fékk þar vökva og vítamínblöndu sem ætluð er selum.

Selurinn inni á meðan lyfjameðferð stendur.
Í fyrstu var Kári innandyra enda lyfjameðferð og vökvagjöf í gangi.

Þegar lyfjagjöf vegna sníkjuorma var lokið fór Kári fyrst að fá matarlystina aftur og jókst hún jafnt og þétt. Að lokum var hann farinn að éta allt að átta síldir á dag, sem jafngildir allt að 1,5 kílóum. Frá því að kópurinn fór að éta og þar til honum var sleppt þyngdist hann um 12 kg, eða um 0,8 kg á viku. Kópurinn dvaldi í innilaug með sjó í og var fluttur á útisvæði þegar tækifæri gafst til inn á milli.

Kári á útisvæðinu
Línurit yfir þyngdaraukningu Kára

Kári á útisvæðinu
Kári á útsvæði í snjónum í febrúar.


Brottför Kára úr garðinum

Kári á leið vestur
Kári fer af stað út í lífið þann 2. maí.

Kára var sleppt á Vestfjörðum því þaðan er stutt að fara á ísjaðarinn milli Íslands og Grænlands sem um þessar mundir er einungis um 60 km út af Norðanverðum Vestfjörðum. Líklegt er að Kári hafi villst þaðan í upphafi ævintýraferðar sinnar. Raunar stóð til að sleppa honum nokkuð fyrr, en COVID-19 setti strik í reikninginn þarna eins og víða annars staðar en hlutirnir hafa gengið hægar fyrir sig í garðinum en venja er. Kári var hins vegar orðinn feitur og pattaralegur þegar honum var sleppt og hefur því fituforða sem eykur lífslíkur hans í náttúrunni.

Á Kára er gervihnattasendir sem sendir boð um staðsetningu hans til Argos gervitungla. Sendirinn er límdur á feldinn á bakinu og mun losna af honum þegar hann fellir hár á næstu vikum eða mánuðum. Þegar þetta er skrifað hefur Kári verið á ferðinni í um sjötíu klukkustundir. Eftir að hafa eytt tæpum sólarhring í Ísafjarðardjúpi tók hann stefnuna til NV í átt til Grænlands. Alls hefur hann synt um 200 km á þessum tíma og hefur því synt að meðaltali á um 3 km/klst hraða. Hann er því kominn mjög nálægt ísröndinni á milli Íslands og Grænlands og verður spennandi að sjá hvort að hann fari að hvíla sig uppi á ísjökum á næstu dögum. Merkið er þannig stillt að þegar það þornar lætur það vita og þannig er hægt að átta sig á hvenær Kári hefur lagst í sólbað.

Kári kominn með merkið
Kári kominn með merkið á sig.

Kári yfirgefur búrið
Kári yfirgefur búrið á sleppistað með merki á bakinu.

Kári fer á vit ævintýranna frá Ísafjarðardjúpi.

Eftirfylgni

Hægt er að fylgjast nánar með Kára hér efst á síðunni eða á þessum tengli hér. Gögnin sem gervitunglin fá frá selnum eru misgóð og stundum koma fram staðsetningarskekkjur. Þá er þéttleiki gervitungla yfir þessu svæði mjög mismunandi eftir tíðum sólarhrings og því má búast við að boð berist ekki alltaf. Kári synti nokkuð rakleiðis út úr Ísafjarðardjúpi og tók stefnuna til NV þegar hann kom út fyrir djúpið. Nú verður spennandi að fylgjast með ferðum Kára og vonandi kemst hann klakklaust aftur til heimkynna sinna í norðri.

Selurinn við komu í garðinn
Samsett mynd af leið Kára og hafíss út af Vestfjörðum tveimur dögum eftir að Kára var sleppt (uppfært 7. maí)

Höfundur: Þorkell Heiðarsson

[]