Kvígan Eyja bar á Öskudag nautkálfi sem fengið hefur nafnið Askur. Askur er fyrsti kálfur Eyju og hún því að finna sig í nýju hlutverki. Þau mæðginin dvelja saman í svo kallaðri Guttormsstíu. Stían, sem var á sínum tíma gjöf til æsku borgarinnar frá æsku sveitarinnar að tilstuðlan Guðna Ágústssonar, var áður stían hans Guttorms, þarfanauts Húsdýragarðsins. Guttormur þótti afar geðgóður en hann náði háum aldri og stór eftir því. Þyngstur var Guttormur 942 kg en hann varð tæplega 13 ára. Það á vel við að Eyja og Askur dvelji nú í stíunni enda eins á litinn og Gutti, rauðskjöldótt bæði og geðslag þeirra líkt og Gutta með miklum ágætum. Gestir eru minntir á mikilvægi þess að sýna ungviði sem og öðrum íbúum garðsins fyllstu tillitssemi alltaf.
