Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn umbreytist í Menningargarðinn næstkomandi laugardag 13.maí þegar haldið verður upp á Fjölmenningardaginn í garðinum. Ókeypis aðgangur verður í garðinn þennan dag og hvetjum við öll til að mæta. Þar verður margbreytileika mannlífsins fagnað með fjölbreyttri dagskrá og uppákomum. Fjöldi fólks leggur sitt að mörkum til hátíðarinnar en það eru svokallaðir sendiherrar í Breiðholti sem skipuleggja daginn.
Sendiherrarnir teygja anga sína um alla borg en um grasrótarverkefni er að ræða sem hófst í Breiðholti fyrir rúmum tveimur árum. Verkefnið stuðlar að því að tengja hina ýmsu mál- og menningarhópa við samfélagið. Við upphaf verkefnisins voru sendiherrarnir sjö frá jafnmörgum mál- og menningarhópum en eru í dag 21 frá 14 mál- og menningarhópum. Hlutverk þeirra er til dæmis mikilvægt þegar kemur að því að miðla upplýsingum um þjónustu Reykjavíkurborgar til sinna samfélagshópa. Nánari upplýsingar um þennan skemmtilega dag má finna hér.