Hryssurnar Fífa (leirljós), Freyja (brúnstjörnótt) og Kengála (brún) eru komnar til dvalar í garðinum. Þær verða hér í haust meðan hestar garðsins eru í fríi en þeir fá hið minnsta jafnlangt sumarfrí og starfsfólk garðsins á rétt á.
Fyrstu dagarnir hjá þeim fóru að mestu í að virða fyrir sér klaufdýr garðsins og sér í lagi nautgripina enda ekki vanar slíkum nábúum þó allar teljist þær fullorðnar og veraldarvanar hryssur.
Nafnið Kengála kemur úr Grettis sögu en Ásmundur faðir Grettis átti hryssu sem bar það nafn. Hún var veðurglögg og lét ekki hafa sig út í neina vitleysu.
Eina hryssu eg á þá,
er Kengálu kalla,
hirðir sú vís um veðra þrá,
og vatnagöngur allar.
Vís mun hríð ef vill hún ei,
vera á jarðarhaga,
byrg um nætur hross, en hey,
hvergi að þeim draga.