Reynslubolti úr dýradeildinni fór í ferðalag í gær miðvikudag. Tilgangur ferðarinnar var að sækja þrjú kið til Jóhönnu geitabónda á Háafelli í Hvítársíðu.
Kiðin sem eru þrjár huðnur hafa verið nefndar Kolbrá, Heiða og Gríma. Litafjölbreytnin er nokkur hjá nýja þríeykinu en Kolbrá er svartflekkótt, mikið svört, Heiða er golbíldótt og Gríma er einnig svartflekkótt en meira hvít í framan en Kolbrá.
