Nú þegar tekið er að kólna og beitin lítil eru grasbítarnir og svínin inni á daginn að undanskildum hestunum og hreindýrunum. Öll dýrin fara þó út fyrir opnun á morgnana og dvelja úti allavega meðan stíur þeirra eru þrifnar og stundum lengur.
Hey er vigtað í sauðfé, geitfé og nautgripi kvölds og morgna en það er alltaf hey í jötum þeirra og/eða í heynetum í stíum þeirra. Vegna þess að vigtað er í þau er mikilvægt að gestir „steli“ ekki heyinu frá þeim og gefi öðrum dýrum og almennt er þeim tilmælum beint til gesta að láta það vera að fóðra dýrin. Bæði vegna þess að dýrin fá sinn skammt frá dýrahirðum og einnig vegna þess að græðgin í dýrunum getur orðið til þess að þau bíti.
Hestarnir dvelja í hestagerðinu á opnunartíma ef vel viðrar og fá morgun- og kvöldgjöfina ýmist í plastkúlur eða heynet sem rúma allt að 3kg af heyi. Á kúlunum eru 19 göt sem eru 6cm í þvermál en hestarnir ná heyinu þar í gegn og þeir éta hægar en annars. Þegar gjöfin er gefin í net hengja dýrahirðar netin á hringekju í hestagerðinu og þeir éta heyið þaðan hægt og rólega. Það er gaman að fylgjast með hestunum éta af hringekjunni því þegar heynetið fer af stað fer greinileg samvinna í gang. Einn hestur staðsetur sig þá þannig að heynet liggur að honum og um leið stöðvast hringekjan. Þá haldast netin kyrr og allir geta étið.
Hreindýrin ganga við opið allt árið og hafa stórt beitarstykki. Þau hafa alltaf aðgang að heyi. Að auki við heyið fá þau hreindýramosa og fóðurbætir alla daga kl. 10:30 og 15:30. Fóðurbætirinn er sérstaklega framleiddur með þarfir hreindýra í huga og er einungis gefin litlu hjörðinni í Húsdýragarðinum. Hreindýrin dvelja lítið inni í hreindýrahúsinu enda afskaplega kuldaþolin en talið er að þau geti þolað við allt að -40°C og geta fundið lykt af fóðri í gegnum allt að 17cm þykkt lag af snjó. Starfsfólk garðsins hefur tekið eftir greinilegri breytingu á hegðun hreindýranna þegar illviðri er væntanlegt. Þá ráfa þau meira um beitarstykkið og eru órólegri en eru annars rólyndisdýr.
Svínin fá sérstaklega blandað svínafóður sem kallast hamingjusvín tvisvar á dag, fyrst strax að loknum morgunþrifum fyrir opnun og seinni gjöf kl. 16:30. Þar að auki fá þau alls kyns aukabita sem dýrahirðar gauka að þeim, gjarnan í tengslum við einhvers konar þjálfun.
Annars er dýrunum gefið og þau kynnt sem hér segir en að auki við dagskrána má oft fylgjast með dýrahirðum að störfum í útihúsunum.
10:30 Hreindýr
11:00 Selir
11:30 Refir og minkar
15:30 Hreindýr
15:45 Smádýrahús
16:00 Selir
16:30 Svín og nautgripir
