Laugardaginn 18. nóvember verður stærsta skrautdúfusýning sem haldin hefur verið hér á landi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Sýningin er samstarfsverkefni áhugafólks um ræktun skrautdúfna, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og Dýraþjónustu Reykjavíkur. Mikið hefur verið flutt til landsins af skrautdúfum undanfarin ár og hafa sumar tegundirnar aldrei verið til hér á landi áður.
Fjölmargir ræktendur munu sýna sína bestu fugla á sýningunni en um er að ræða rúmlega 100 fugla af allavega 20 tegundum í fjölmörgum litum. Þá munu tveir safnarar sýna muni sem tengjast dúfnasportinu. Ljósmyndir sem tengjast skrautdúfnarækt verða sýndar á risaskjá auk mynda af enn stærri sýningum erlendis.
Sýningin verður frá kl. 10 til 16 í skálanum við veitingahúsið en garðurinn opinn frá kl. 10 til 17. Hefðbundinn aðgangseyrir í garðinn gildir á sýninguna.
Nánari upplýsingar veitir Tumi Kolbeinsson í gegnum netfangið tumikolb@gmail.com.
