Helgina 8. til 10. desember verður opið frá kl. 10 til 20 og opið í veitingasölu Bæjarins Beztu. Hefðbundinn aðgangseyrir er frá kl. 10 til 17 en eftir það er öllum boðið ókeypis í garðinn í boði Hverfisins míns. Sauðfé Fjölskyldu- og húsdýragarðsins verður rúið sunnudaginn 10. desember frá kl. 15 til 18. Jón bóndi í Mófellsstaðakoti mun halda um klippurnar og fólk frá Ullarselinu vinnur úr ullinni í fjárhúsinu jafnóðum.
Jólaljós hafa verið sett upp um allt í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum svo nú er ævintýri líkast að ganga um garðinn í rökkrinu, heimsækja dýrin og þau sem þora geta heimsótt sjálfan jólaköttinn í desember. Á kvöldopnunum (frá 17-20 um helgar fram að jólum) verður hringekjan í gangi. Hundaeigendum sem hafa skráð sína hunda hjá sínu sveitarfélagi er boðið að taka besta vininn með í kvöldheimsókn.
Ratleikir fyrir alla fjölskylduna eru aðgengilegir í gegnum smáforritið Húsdýragarður – viskuslóð sem finna má i snjallverslunum snjalltækja. Þau sem ljúka ratleikjunum um helgina fá glaðning frá Bæjarins Beztu en þar á bæ verður einnig hægt að skreyta piparkökur.