Refurinn Jarl hefur hlotið töluverða athygli undanfarið i tengslum við Evrópumótið í handbolta og því er ekki úr vegi að kynnast tegundinni aðeins betur.
Jarl er heimskautarefur Alopex lagopus en tegundin er gjarnan nefnd tófa í daglegu tali hérlendis. Fjölmörg orð hafa þó verið notuð yfir tófuna og þar má nefna djangi, dratthali, fjallarefur, gráfóta, holtaþór, lágfóta, melrakki, rebbali, skolli, tæfa og vembla. Tvö litaafbrigði finnast af tófunni hvítt og mórautt og Jarl er mórauður. Hvítar tófur eru næstum alhvítar á veturna en grábrúnar á baki, utanverðum útlimum og ofan á skotti en annars ljósgráar. Þær móauðu eru dökkbrúnar allt árið en á vetrarfeldi verða stundum ljós vindhár áberandi sem sýnir þau grárri að lit. Hvíti liturinn er víkjandi sem þýðir að genið sem veldur hvítum lit þarf a vera í tvöföldum skammti eða hafa erfst frá báðum foreldrum til þess að dýrið verði hvítt, annars verður tófan mórauð.
Mórauð tófa
Hvít tófa
Tófan er útbreidd á eyjum og meginlöndum allt í kringum norðurheimskautasvæðið. Hérlendis finnst tófan um allt land nema á jöklum, eyðimörkum hálendisins og eyjum umhverfis landið. Almennt er talið að mest sé um refi í nágrenni gjöfulla strandlengja en þéttleikinn er talinn mestur í Hornstrandarfriðlandi.
Vulpes velox og Vulpes macrotis eru þær tegundir sem skyldastar eru tófunni en þær lifa hvor sínu megin við Klettafjöll Norður-Ameríku. Þær eru svipaðar að stærð en ekki eins kuldaaðlagaðar og tófan. Sameiginlegur forfaðir þeirra var uppi fyrir minna en einni milljón ára og telst tófan því vera raunverulegt afsprengi ísaldarkuldanna. Tófan er með vel þykkan vetrarfeld og vel aðlöguð að miklum kulda og er talin þoka allt að -70°C áður en hún fer að skjálfa sér til hita. Þófarnir eru oft alhærðir að vetrarlagi. Svo hjálpar það til að hún er með ávöl og hlutfallslega lítil eyru, stuttan háls og stutt en loðið skott. Lífshættir spendýra á norðurslóðum og þar með tófunnar eru mjög breytilegir. Sumarið er undirlagt yrðlingauppeldi en að vetri er undirbúningur undir fengitíma og meðgöngu helst á dagskrá. Þar á meðal far ungra refa að heiman í leit að maka og óðali. Eðlilega eru fæðuskilyrði nokkuð ólík eftir árstíðum, næg fæða á að sumri en getur verið stopul að vetrarlagi. En refir hugsa fram í tímann og safna spiki annars vegar og fela fæðu á óðalinu yfir sumarið til að eiga fyrir veturinn.
Tófan kom til Íslands í lok síðasta jökulskeiðs á ísjökum frá Austur-Grænlandi og hefur náð að þrauka hér þrátt fyrir afar fábreytt fuglalíf í upphafi. Tófan er eina landspendýrið á Íslandi sem ekki hefur verið flutt inn af fólki. Önnur landspendýr hafa verið flutt inn til að nýta þau eða hafa sem gæludýr þó önnur hafi komið hingað óvart með fólki. .
Tófan er tækifærissinni þegar kemur að fæðuvali og því er fæðuval hennar breytilegt hérlendis eftir svæðum og árstíðum. Í rannsókn sem gerð var í Ófeigsfirði á Ströndum árin 1978-1979 kom í ljós að algengasta fæðan að vetrarlagi var svartfuglar enda eru þeir algengir þar. Að sumri átu þær þó helst fýla og æðarfugla og síðsumars lögðust þær í berjamó. Upplýsingar frá grenjaskyttum hafa einnig verið rýndar en þar kemur helst fram að hrognkelsi, svartfuglar og æðarfugl finnst sjaldan á grenjum sem eru meira en 5 km fjarlægð frá sjó en þá eykst tíðni spörfugla, vaðfugla, rjúpna og gæsa með aukinni fjarlægð frá sjó. Á sumrin finnast lambahræ á um 20 % grenja og tilurð þeirra er bæði verk dýrbíta en einnig refa sem finna hræ og draga að greni.
Í Jónsbók var birt í kringum árið 1295 eftirfarandi klausa: „at hver sá bóndi sem hefur 6 sauðkindur í eigu eður varðveislu, hann skal veiða á ári hverju 2 unga refi, eður eina gamaltófu, ella greiði 3 álnir í mat fyrir fardaga; og sá sem eigi hefur lokið því föstudaginn í fardögum, skal greiða 4 álnir að auki, sem hreppstjórar skulu heimta og viðtöku veita, hvort tveggja sem vitaskuld, og öðlast sækjandi hálfa sektina.“ Þessi greiðsla sem kölluð var dýratollur var við lýði í 6 aldir eða til ársins 1892. Dýratollurinn rann til tófufangara sem fengnir voru til að stunda veiðarnar og halda tófum frá búpeningi bænda og öðrum verðmætum sem þær sóttust í. Á 20. öld breyttust lögin sem þá fóru að snúast aðallega um það hvernig greiðslur til grenjaskytta skiptust á milli sveitarfélaga, sýslusjóða og ríkissjóðs. En árið 1994 varð meiriháttar breyting með tilkomu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Samkvæmt þeim nýtur refurinn nú verndar enda skuli honum ekki stefnt í hættu með veiðum eða öðrum aðgerðum. Það þýðir þó ekki að refurinn sé alfriðaður en veiðar á ref eru ekki heimilaðar þar sem dýralíf er friðað samkvæmt náttúruverndarlögum. Í borgarlandinu eru greni ekki lengur unnin.
Hvítabjörn einnig kallaður ísbjörn er algengur á norðurslóðum líkt og tófan. Það er ekki ósennilegt að hvítabirnir og tófur hafi í einhverjum tilvikum orðið samferða á ferð sinni suður til Íslands af heimskautasvæðunum enda þekkt að þeir hjálpist að við veiðar. Hvítabirnir búa þau ekki á Íslandi þó þeir hafi annað veifið komið hingað til lands.