Í garðinum búa nokkrar dýrategundir sem ekki finnast í íslenskri náttúru. Þeirra á meðal er afríska risafætlan sem er stærsta núlifandi tegund þúsundfætla en alls er talið að um 12.000 tegundir þúsundfætla finnist í heiminum. Hún getur orðið tæplega 40 cm að lengd eða lengd tveggja óyddaðra blýanta, tæpir 7 cm að ummáli líkt og ummál 50 krónu penings og hefur um það bil 256 fætur.
Þúsundfætlur eru liðdýr en svo nefnist stærsta fylking dýra. Meðal liðdýra eru skordýr, krabbadýr, áttfætlur og önnur svipuð dýr sem hafa liðskiptan líkama og harða ytri stoðgrind. Þúsundfætlur eru með tvö fótapör á hverjum lið nema þeim sem eru næst hausnum þar sem er engar fætur eru og á næstu liðum þar á eftir þar sem aðeins er eitt fóta par.
Þúsundfætlur eru hægfara dýr sem nærast á groti sem er lífrænn úrgangur úr sundruðum lífverum eða saur. Þær éta einnig laufblöð sem fallið hafa af trjám. Grotætur mynda grunn fæðukeðjunnar í mörgum vistkerfum. Margfætlur sem eru skyldar þúsundfætlum eru þó ekki grotætur heldur eitruð rándýr. Margfætlur hafa þó nokkuð færri fætur en þúsundfætlur þar sem eingöngu eitt fótapar er á hverjum lið og fremst á líkamanum eru þær með eitraðar klær.
Afríska risafætlan er nokkuð útbreidd tegund á láglendissvæðum Austur-Afríku, frá Mósambík til Kenýa. Þar finnst hún í skógum en einnig á strandsvæðum þar sem einhver tré finnast.
Varnarviðbrögð risafætlunnar eru einkum af tvennum toga. Annars vegar hringar hún sig og treystir þá á hart yfirborðið til varnar. Hins vegar seyta þær ertandi vökva úr svitaholum sem getur verið skaðlegur ef hann berst í augu eða munn. Þúsundfætlur geta orðið allt að 10 ára
Litlir maurar sjást oft skríða á risafætlum og helst við fætur þeirra. Bæði maurarnir og þúsundfætlurnar njóta góðs af þessu sambýli. Maurarnir hjálpa til við að þrífa þúsundfætlurnar í skiptum fyrir fæði (húðflygsur og annað) og örugga búsetu.