Huðnan Lilja þjófstartaði geitburði árla morguns sunnudaginn 11.febrúar þegar sprækur hafur skaust í heiminn. Venjulega hefur starfsfólk garðsins haldið því fram að geitburður boði komu vorsins en það er sennilega ekki raunin nú á miðjum Þorra. Faðirinn er hafurinn Ýmir.
Geitburður hefst venjulega í garðinum í byrjun apríl en Lilja kom einmitt í heiminn 1.apríl 2022 og þetta er hennar fyrsti burður. Þegar þetta er ritað er kiðlingurinn ekki kominn með nafn en hugmyndafrjó geta komið með hugmyndir undir færslu á Facebook síðu garðsins.