Sauðburður hófst í morgun (10.maí) þegar ærin Dokka bar lambakóngi og lambadrottningu. Það eru fyrstu lömb á hverjum bæ sem fá þessa konunglegu titla. Faðirinn er hrúturinn Jökull sem bíður rétt eins og starfsfólk garðsins fleiri lamba sem væntanleg eru á næstu dögum.
Móðurhlutverkið fer Dokku vel en hún dvelur nú á afmörkuðu svæði í kindastíunni meðan hún myndar góð og sterk tengsl við lömbin tvö.
Um leið og ær hefur borið lambi sínu eða lömbum í heiminn tekur hún við að kara afkvæmin. Það þýðir að hún sleikir slím og blóð af þeim og setur þar með lykt sína á lömbin. Ærin þekkir svo í framhaldinu lömb sín á lyktinni. Lamb er 3-4 kg að þyngd þegar það kemur í heiminn eða álíka þungt og nýfætt barn.
Líkt og alltaf biðjum við gesti að sýna ungviðinu sem og öðrum íbúum garðsins fyllstu tillitssemi.



