Í gegnum tíðina hefur verið komið með alls kyns dýr í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem lent hafa í hremmingum í borgarlandinu. Nú hefur Dýraþjónusta Reykjavíkur tekið við því hlutverki en Dýraþjónustan er staðsett í garðinum og er rekin af Reykjavíkurborg. Það er skylda hvers sveitarfélags að koma villtum dýrum til aðstoðar sem finnast innan þeirra marka. Aðstoðin getur verið allt frá því að aðstoða dýrið aftur í betri aðstæður til mikillar dýralæknisaðstoðar. Fólk sem verður vart við dýr í vanda í borgarlandinu getur haft samband við Dýraþjónustuna í síma 822-7820.
Langflest dýrin hafa verið fuglar og hafa þá ýmist komið einir eftir hvers kyns hrakningar eða í stórum hópum eftir að hafa lent í olíu. Nokkur spendýr hafa einnig þurft aðstoð en mest framandi spendýrið sem hefur ratað í garðinn er eflaust ávaxtaleðurblaka sem kom í garðinn í júlí 2011. Hún hafði fundist illa á sig komin í skipi í Reykjavíkurhöfn og miskunnarsamir skipverjar komu með hana í garðinn. Þar reyndi starfsfólk að hressa hana við og gáfu henni meðal annars hunang en allt kom fyrir ekki því hún hafði það ekki að. Það skal tekið fram að fyllstu varúðar var gætt við meðhöndlun á þessu framandi dýri sem var haldið fjarri öðrum dýrum á meðan á stuttri dvöl þess stóð.
Ávaxtaleðurblakan er þó ekki eina leðurblakan sem hefur sést í garðinum í gegnum árin því snillingarnir á verkbækistöðunni í Laugardalnum settu leðurblöku í eitt beða Fjölskyldugarðsins árið 2012. Vert að hvetja borgarbúa og -gesti að virða fyrir sér beðin í borginni og leita af slíkum listaverkum.