Sauðfé af Ströndum og geitfé úr Hvítársíðu

2.október 2024

Ég er að lesa

Sauðfé af Ströndum og geitfé úr Hvítársíðu

Dagana 25. og 26. september sl. var starfsfólk Fjölskyldu- og húsdýragarðsins á faraldsfæti og heimsótti bændur á Heydalsá á Ströndum og á Háafelli í Hvítársíðu. Tilgangur ferðalaganna var að sækja sauð- og geitfé.

Fyrst var farið að Háafelli í Hvítársíðu þar sem geitur hafa verið ræktaðar síðan 1989. Hjónin Jóhanna B. Þorvaldsdóttir og Þorbjörn Oddsson bjuggu með blandað bú til ársins 2005 þegar geitur voru orðnar meginbústofn bæjarins.
Á Háafelli hefur verið lögð áhersla á þróun og markaðssetningu geitfjárafurða og nýtingu alls hráefnis. Íslenski geitfjárstofninn hefur verið í útrýmingarhættu í mörg ár og þarfnast verndunar og viðhalds. Hvað varðar ræktun geitarinnar hefur áherslan verið á að minnka skyldleika og halda í fjölbreytni. Hollusta og gæði geitfjárafurða er mikil og áhugi almennings sífellt að aukast. Árið 2012 var Geitfjársetur opnað að Háafelli en þar er tekið á móti gestum sem vilja komast í návígi við geitur, læra um þær og kynnast afurðum þeirra. Áhugasöm geta kynnt sér starfsemina á heimasíðu þeirra www.geitur.is.
Frá Háafelli komu með í Laugardalinn þrjár gullfallegar og yfirvegaðar huðnur sem hafa aðlagast litlu hjörðinni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum vel. Jóhanna hafði sjálf nefnt tvær þeirra og halda þær að sjálfsögðu nöfnum sínum í borginni. Fyrsta ber að nefna golsuflekkóttu huðnuna Ársól, þá gráflekkóttu huðnuna Huldu og „antilópubaugóttu“ huðnuna Kristínu. Litur þeirrar síðastnefndu hefur að sögn Jóhönnu á Háafelli ekki enn fengið formlegt heiti en ljósbrúni liturinn sem einkennir hana hefur sofið í genum undanfarna áratugi en er nú að koma fram á ný.

Daginn eftir var farið í ferðalag norður á Strandir og bændurnir Ragnar Kristinn Bragason og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir á Heydalsá heimsóttir. Þar er rekið stórt sauðfjárbú af miklum myndarskap sem gaman var að heimsækja. Í fjárhúsunum vakti litafjölbreytnin athygli þeirra sem komu fyrir hönd garðsins sem og snyrtimennskan sem er í hávegum höfð á Heydalsá. Þar valdi starfsfólk garðsins þrjár myndarlegar gimbrar. Svarta sem fengið hefur nafnið Surtla, hvíta sem heitir Mjöll og mórauða krúnótta sem auðvitað fékk nafnið Krúna. Þær hafa líkt og huðnurnar ungu aðlagast fjárhjörð garðsins vel.

Geit- og sauðfé garðsins gengur úti fyrri part dags þessa dagana en vera þeirra úti styttist í takt við minnkandi beit þó svo þau fari út alla daga ársins sama hvernig viðrar.

Share this post
Facebook
Twitter
Tengt efni
Privacy Overview

This website uses cookies so that we can provide you with the best user experience possible. Cookie information is stored in your browser and performs functions such as recognising you when you return to our website and helping our team to understand which sections of the website you find most interesting and useful.