Maurar kíkja í heimsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sunnudaginn 15. desember. Frá kl. 15:30 til 18 geta forvitnir gestir svalað forvitninni, skoðað heillandi einkenni mauranna og fengið betri skilning á stórkostlegu samfélagi þessara félagslyndu skordýra. Maurarnir verða í skriðdýrahúsinu milli fjóssins og fjárhússins. Viðburðurinn er í samstarfi við Háskóla Íslands.
Opið verður til kl. 20 alla helgina (föstudag til sunnudags) og ókeypis inn frá kl. 17 í boði Hverfisins míns. Á kvöldopnunum verður hægt að fara í hringekjuna, heimsækja dýrin, matarvagnar verða í garðinum, jólatónlist mun óma og jólaljósin skapa réttu stemninguna en hundruð þúsunda jólaljósa eru um allan garð. Opið er aðra daga vikunnar frá kl. 10 til 17.