Við sögðum fréttir af því fyrir mánuði að kornhænur hefðu bæst við íbúatölu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Á dögunum bættist enn við fánuna þegar tveir kalkúnar fluttu í garðinn. Hér áður fyrr voru kalkúnar meðal dýra garðsins og starfsfólk er virkilega spennt yfir að fá að hugsa um þessa skemmtilegu stóru fugla á ný.
Til eru nokkur afbrigði kalkúna og litafjölbreytnin nokkur. Hvítir kalkúnar eru algengastir hérlendis enda alikalkúnar flestir hvítir að lit og hafa nokkrir slíkir búið í garðinum sem og bronskalkúnar en kalkúnahaninn og kalkúnahænan sem fluttu í garðinn á dögunum eru svört. Þau hafa fengið nöfnin Flóki og Flækja. Svartir kalkúnar eru einnig sagðir vera koparlitaðir þar sem koparlit kastar á þá í dagsbirtu og sól.
Líkt og kornhænur eru kalkúnar af fasanaætt en kalkúnar eru umtalsvert stærri. Kalkúnahaninn hefur stóran áberandi sepa fyrir neðan gogginn og liturinn á hausnum getur verið frá því að vera ljósblár yfir í fagurrauðan.
Við biðjum gesti að sýna nýju íbúunum tillitssemi sem og öllum hinum dýrunum í garðinum.