Fyrsti kiðlingur ársins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum leit dagsins ljós í morgunsárið. Það var huðnan Kolbrá sem var fyrst þegar hún bar myndarlegum hafri og nokkrum tímum síðar bar huðnan Síða myndarlegri huðnu. Faðir þeirra beggja er hafurinn Emil. Áhugasöm geta kíkt í heimsókn til þessara ofurmyndarlegu vorboða alla daga frá kl. 10 til 17.
Geitur eru meðal fyrstu húsdýra í heiminum en talið er að þær hafi fylgt manninum í 10.000 ár en það er helst mjólk þeirra ásamt ull og kjöti sem er nýtt. Þær eru meðal landnámsdýra á Íslandi, voru fluttar hingað til lands með landnámsfólkinu. Þær hafa verið kallaðar kýr fátæka fólksins enda léttar á fóðrun og plássnettar. Fjöldi þeirra á Íslandi hefur aldrei verið mjög mikill en árið 2021 voru 1.672 geitur sagðar hafa verið á Íslandi.
Efri myndin hér að neðan er af Kolbrá og hafrinum hennar og sú neðri af Síðu og huðnunni hennar.