Barnamenningarhátíð hefst í dag (8.apríl) og stendur fram á sunnudag (13.apríl). Alls konar verður um að vera um alla borg en einn af föstum punktum hátíðarinnar er svo kölluð Ævintýrahöll. Ævintýrahöllin hefur í gegnum tíðina flakkað á milli hverfa borgarinnar og í ár fer hún fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum helgina 12. og 13. apríl. Þar verður sannkallað líf og fjör og er aðgangur ókeypis. Dagskráin í kringum dýrin verður hefðbundin og opið verður í hringekju, áður auglýst lest kom því miður verr undan vetri en vonir höfðu verið bundnar við.
Að auki verður boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og aðstandendur þeirra frá klukkan 10:30 til 16:30 báða dagana. Í boði verður fjölskyldujóga, ratleikir, brekkusöngur, dans, sirkus atriði og krakkakarókí svo eitthvað sé nefnt auk þess að hægt verður að heimsækja dýrin.
Auðvelt er að ferðast með almenningssamgöngum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en þeir strætisvagnar sem stöðva næst garðinum eru númer 2, 5, 15 og 17. Stöðin kallast Laugardalshöll.
Það liggja reiðhjóla- og göngustígar að Laugardalnum úr öllum áttum og eru hjólagrindur við inngang Fjölskyldugarðsins og bílastæði við garðinn eru ókeypis. Gott aðgengi fyrir öll.
Nánari upplýsingar um dagskrá Ævintýrahallarinnar má finna hér.