Ærin Hetta fagnaði sumrinu þegar hún bar þremur fallegum gimbrum á þriðja degi sumars, laugardaginn 26. apríl. Sauðburður hélt svo áfram þegar ærin Tvenna bar tveimur hrútum, þann 6. maí. Geitburði lauk á milli þessara tveggja burða þegar huðnan Gríma bar hafri á Verkalýðsdaginn og Alþjóðlegum degi íslenska hestsins þann 1.maí.
Sauðburður er annasamur tími á sauðfjárbúum þar sem fjöldi áa telur í nokkrum tugum og hundruðum en í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum er fjöldinn heldur minni. Sauðburður heldur áfram næstu daga og við munum flytja fréttir af honum jafnóðum. Féð er nú þegar byrjað að fara út á beitarstykki í stuttan tíma dag hvern en tíminn eykst eftir því sem nær dregur sumri.
Ærin Hetta og þrílembingarnir
Tvennan hennar Tvennu
Verkalýðshafurinn hennar Grímu