Brúna hryssan Kengála og rauðstjörnótta folaldið hennar Rasmus eru mætt til sumardvalar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Folaldið er undan Þyt frá Skáney.
Hryssur ganga með folöld í 11 mánuði og þegar hryssa kemur folaldinu í heiminn er talað um að hryssan kasti. Hryssur kasta vanalega einu folaldi í einu þó það sé þekkt að það komi tvö. Líkt og önnur spendýr nærast folöldin fyrst um sinn á móðurmjólkinni sem kallast kaplamjólk og þau eru komin á fætur innan klukkustundar frá kasti til að fá sér mjólkursopa. Þegar hryssa gengur með folald er hún sögð fylfull og hryssa sem folald gengur undir (sýgur hryssu) er sögð vera fylsuga. Þegar folaldið er orðið eins árs er það kallað trippi fram til þriggja vetra aldurs.
Dýrahirðar ítreka ósk sína til gesta að þeir sýni ungviðinu sem og öðrum íbúum garðsins fyllstu tillitssemi.