Það er ekki bara geitburður sem boðar komu vorsins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum því Bæjarins Beztu Pylsur hafa opnað útibú sitt í garðinum á ný eftir vetrardvala. Gestir garðsins geta því fengið sér rjúkandi heitar pylsur, ískalt gos, sælgæti, snakk, bakkelsi hjá þeim og þau þar á bæ hafa auk þess alltaf heitt á könnunni.
Garðurinn er opinn alla daga frá kl. 10 til 17 en vert að minnast á þó sólin skíni skært þessa dagana þá er garðurinn ekki alveg kominn í sumargírinn. Leiktæki sem þurfa mönnunar við eru enn lokuð en leiksvæði Fjölskyldugarðsins opið. Mönnuðu leiktækin verður vonandi hægt að opna eitt af öðru eftir því sem nær dregur sumri. Dagskrá í kringum dýrin er hefðbundin og þegar þetta er ritað er enn beðið eftir að fjórða og jafnframt síðasta fengna huðnan beri.