Lífið gengur sinn vanagang í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Aðsóknin það sem af er hausti hefur verið yfir meðallagi og september mánuður var fjórði besti september frá því garðurinn hóf starfsemi hvað varðar gestafjölda.
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir opnun Jóladalsins og víða um garð má sjá starfsfólk hengja upp seríur, setja niður kyndla og tryggja góða stemningu á aðventunni. Kveikt verður á dýrðinni með formlegum hætti síðdegis föstudaginn 29. nóvember og nánari upplýsingar birtar hér á síðunni og víðar þegar nær dregur. Eitt er víst að ljósadýrðin verður meiri en undanfarin ár og stemningin vonandi eftir því.
Af dýrunum er almennt gott að frétta, þau eru að komast í vetrargírinn og dvelja meira inni við enda beitin á undanhaldi. Skemma hefur verið reist við loðdýrahúsið þar sem hægt er að geyma fóður, undirburð og annað sem þarf í kringum dýrahald.
Garðurinn er opinn alla daga frá kl. 10 til 17 og á aðventunni (frá 29. nóvember til jóla) verður opnunartíminn lengdur til kl. 20 föstudaga, laugardaga og sunnudaga.