Hornfellingar hjá simlunum

13.apríl 2023

Ég er að lesa

Hornfellingar hjá simlunum

Simlan Hallveig hefur fellt bæði hornin og þegar þetta er ritað hefur simlan Regína fellt annað hornið. Þegar það gerist svo snemma að vori er það vísbending um að ekki sé von á kálfum frá þeim simlum. Það er þó nokkuð sem kemur starfsfólki garðsins ekkert á óvart því enginn tarfur er í hjörðinni sem hefði getað kelft simlurnar.  Kelfdar simlur halda vanalega í hornin fram yfir burð sem er seint að vori eða snemma sumars. Hreintarfar eru aftur á móti hyrndir fram yfir fengitíma að hausti. Sama hvenær hornin falla þá byrja ný að myndast fljótlega eftir hornfellingu. Að auki við þær Hallveigu og Regínu er simlan Gullbrá einnig í garðinum en hún tilheyrir 4% hreindýrastofnsins á Íslandi sem er kollóttur, það er fá aldrei horn.

Hreindýr er eina tegund hjartardýra þar sem bæði karl- og kvendýrin fá horn en þau falla og vaxa á ný ár hvert. Meðan þau vaxa eru þau klædd dökkbrúnni, mjúkri og æðaríkri húð sem kölluð hefur verið basthúð. Þegar hornin eru fullvaxin harðna þau og rótarkrans sem er neðstur á þeim brýst í gegnum húðina. Þá deyr basthúðin og flagnar af og nokkru síðar falla hornin. Hornin eru talin vera stöðutákn, það dýr sem hefur stærstu hornin ræður mestu. Þegar tarfarnir hafa fellt hornin ráða simlurnar en þá er vetur farinn að minna á sig og í mars apríl fella þær simlur sem ekki eru kelfdar hornin og eftirláta þannig „völdin“ til þeirra simla sem ganga með kálf. Þannig ná simlurnar mögulega að hafa forgang að til dæmis besta beitilandinu.

Áhugasöm geta lesið sér meira til um hreindýr á vef Nátturstofu austurlands. Þar nota þau orðið kýr yfir kvendýr en við í Húsdýragarðinum notum bæði kýr og simla og viljum síður að hið síðarnefnda týnist úr málinu.

 

 

Share this post
Facebook
Twitter
Tengt efni
Privacy Overview

This website uses cookies so that we can provide you with the best user experience possible. Cookie information is stored in your browser and performs functions such as recognising you when you return to our website and helping our team to understand which sections of the website you find most interesting and useful.