Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn skiptir um gír þann 31. maí þegar sumarvertíðin hefst formlega og þá lengist opnunartíminn og leiktæki verða opin alla daga. Opnunartíminn verður alla daga frá kl. 10 til 18. Varahlutir í fallturninn bárust í vikunni og stefnt er að því að klára viðhald á honum áður en langt er liðið á júní, hann er því lokaður á meðan.
Sumarvertíðin í ár hefst með lúðrablæstri og marseringum þar sem uppskeruhátíð Skólahljómsveita Reykjavíkur verður haldin í garðinum frá kl. 13 og fram eftir degi þann 31.maí.
Dagskráin í kringum dýrin breytist lítillega og nýr dagskrárliður sem kallaður er umhverfisauðgun verður alla daga vikunnar í sumar. Klukkan 14 alla daga mun starfsfólk dýra- og fræðsludeildar sýna og segja frá umhverfisauðgun hjá dýrunum. Umhverfisauðgunin er af ýmsum toga en takmarkið er að auðga umhverfið og um leið auðvelda starfsfólki að nálgast dýrin á öruggan hátt þegar á þarf að halda. Það getur til dæmist átt við þegar dýralæknir eða starfsfólk garðsins þarf að skoða dýrið ítarlega eða þegar gefa þarf dýri lyf eða bætiefni. Mismunandi er milli daga hvaða dýr eru tekin fyrir.
Dýradagskrá sumarsins verður sem hér segir.
10:30 Hreindýr
11:00 Selir
11:30 Refir
14:00 Umhverfisauðgun
15:30 Hreindýr
16:00 Selir
16:30 Nautgripir & svín
16:45 Sauðfé & geitfé sett inn
17:15 Refir
18:00 Garðinum lokað
Umhverfisauðgun
Staðsetning breytileg
Mán: Naugripir & svín
Þri: Sauðfé & geitfé
Mið: Fálki / stóra fuglabúrið
Fim: Hreindýr
Fös: Refir
Lau: Smádýrahús
Sun: Selir