Sauðburði lauk á uppstigningardag (29. maí) þegar ærin Kylja bar tveimur lömbum, svartflekkóttum hrúti og svartri gimbur (myndir neðst í fréttinni). Kylja og aðrar ær garðsins ásamt lömbum þeirra taka á móti gestum á opnunartíma og vonandi viðrar þannig komandi daga að þau geti verið sem mest úti. Dýrahirðar biðja gesti að sýna ungviðinu sem og öðrum dýrum fyllstu tillitssemi alltaf og ganga hljóðlega um.
Dýradagskrá tekur breytingum á morgun 31.maí þegar sumarvertíðin hefst í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en þá lengist opnunartíminn um klukkustund og opið verður frá kl. 10 til 18.
Nýr dagskrárliður sem kallaður er umhverfisauðgun verður alla daga vikunnar. Klukkan 14 alla daga mun starfsfólk dýra- og fræðsludeildar sýna og segja frá umhverfisauðgun hjá dýrunum. Umhverfisauðgunin er af ýmsum toga en takmarkið er að auðga umhverfið og auðvelda starfsfólki að nálgast dýrin á öruggan hátt þegar á þarf að halda. Það getur til dæmist átt við þegar dýralæknir eða starfsfólk garðsins þarf að skoða dýrið ítarlega eða þegar gefa þarf dýri lyf eða bætiefni. Mismunandi er milli daga hvaða dýr eru tekin fyrir.
Dýradagskrá sumarsins verður alla daga sem hér segir en þá eru dýrin fóðruð og dýrahirðar segja gestum frá þeim.
10:30 Hreindýr
11:00 Selir
11:30 Refir
14:00 Umhverfisauðgun
15:30 Hreindýr
16:00 Selir
16:30 Nautgripir & svín
16:45 Sauðfé & geitfé sett inn
17:15 Refir
18:00 Garðinum lokað
Umhverfisauðgun
Staðsetning breytileg eða sem hér segir
Mán: Naugripir & svín
Þri: Sauðfé & geitfé
Mið: Fálki / stóra fuglabúrið
Fim: Hreindýr
Fös: Refir
Lau: Smádýrahús
Sun: Selir