Ærin Kylja (mórauð) bar tveimur gimbrum og einum lambhrúti í gærkvöldi (24.maí) og ærin Sylgja (mógolsótt) bar tveimur hrútum eldsnemma í morgun (25.maí). Þá eru, þegar þetta er ritað, óbornar ærnar Dokka og Hetta og má búast við að þær beri á allra næstu dögum. Faðir allra lambanna er hrúturinn Jökull.
Strax eftir burð karar ærin lömbin en sögnin að kara lýsir því þegar ærin sleikir slímið og blóðið af nýbornum lömbum sínum. Meðan ærin karar má segja að ærin skilji lykt sína eftir á lambinu og eftir það þekkir hún sín lömb á lyktinni.
Stafsfólk garðsins ítrekar þau tilmæli til gesta að þau sýni ungviðinu og öðrum dýrum garðsins tillitssemi.