Laugardaginn 29. nóvember mun Jón bóndi í Mófellsstaðakoti mæta með klippurnar til að rýja sauðfé garðsins og unnið verður úr ullinni af handverksfólki jafn óðum. Rúningur hefur verið vel sóttur enda bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá snillinginn Jón og handverksfólkið að störfum. Búist er við að verkinu ljúki upp úr kl. 18 en þá verður upplagt að ganga um jólaljósaskreyttan garðinn í myrkrinu.
Jólakötturinn verður á sínum stað og kerti og eldar víða um garð síðdegis á laugardögum og sunnudögum. Bæjarins Beztu ætla að vera með jólalegar veitingar í kaffihúsinu og dagskráin í kringum dýrin verður með jólablæ. Opið verður frá kl. 10 til 20 á laugardögum og sunnudögum á aðventunni. Aðra daga verður opið frá kl. 10 til 17, nema aðfangadag, gamlársdag og nýársdag verður opið frá kl. 10 til 15 og lokað á jóladag. Hefðbundinn aðgangseyrir verður allan desember.


