Þrír fulltrúar Húsdýragarðsins fóru í ferðalag norður á Strandir í upphafi vikunnar til að ná í þrjár gimbrar. Lagt var af stað úr fallegri reykvískri haustblíðu en þegar komið var í Gilsfjörð tók annað við, hávaðarok og rigning. Útsýni var takmarkað yfir Þröskulda en skánaði til muna þegar ekið var áleiðis á Strandirnar. Þar var farið beint að bænum Heydalsá þar sem Ragnar bóndi hafði rekið saman nokkrar gullfallegar gimbrar sem hægt var að velja úr. Úr varð að gimbrarnar Tvenna sem er svartbíldótt, Björt móflekkótt og Orka móarnhöfðótt voru fluttar í Laugardalinn. Tvenna og Björt eru kollóttar en Orka er hyrnd.
Eldri ærnar og hrúturinn Jökull hafa tekið vel á móti nýju gimbrunum.