Í vor og sumar verður veitingasala í garðinum í höndum Bæjarins Beztu Pylsna. Á boðstólnum verða alls kyns veitingar en þjóðarétturinn pylsa verður auðvitað í aðalhlutverki, með öllu, engu eða sumu. Hægt verður að kaupa veitingar til að borða í veitingaskálanum en einnig til að taka með og grilla á útigrillinu við Iðavelli í Fjölskyldugarðinum. Bæjarins Beztu þarf ef til vill ekki að kynna fyrir fólki en fyrirtækið er eitt elsta fyrirtækið í miðborg Reykjavíkur, stofnað árið 1937 og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi. Pylsuvagninn í miðborginni er þekktasta útibú Bæjarins Beztu en þar hafa mörg smakkað þennan þjóðarrétt Íslendinga, þeirra á meðal er Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti og James Hetfield söngvari Metallica.
Bæjarins Beztu eru nú að koma sér fyrir í Kaffihúsinu og stefna að því að opna um páskana.