Fræðsludeild Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hefur látið gera smáforrit sem gestir geta nýtt til að fræðast um dýrin í garðinum í snjalltækjum sínum. Þegar skólar taka til starfa í haust mun bætast við sérsniðin fróðleikur fyrir leik- og grunnskólanemendur en þangað til er almennum gestum boðið að fara í snjalla leiðsögn og í léttan ratleik.
Með tilkomu smáforritsins er mögulegt að fleiri skólahópar geti notið leiðsagnar heldur en þau sem ná að bóka hjá fræðslufreyjum garðsins. Leiðsagnir hjá fræðsludeildinni eru umsetnar á vinsælustu tímunum, sérstaklega þegar nálgast vormánuði.
Smáforritið sem kallast Húsdýragarðurinn – Viskuslóð má nú finna í bæði AppStore og Play Store og það var unnið af Locatify. Við hlökkum til að þróa það enn frekar fyrir fróðleiksfúsa nemendur sem sækja garðinn.
