Nútíð og framtíð.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur breyst töluvert frá því hann var opnaður. Framandi dýr hafa nú aðsetur í garðinum frá öllum heimshornum að auki við dýrategundirnar sem hafa verið frá upphafi. Framandi dýrin eru skriðdýr, froskdýr auk skordýra af ýmsum toga.

Leiktæki Fjölskyldugarðsins eru af ýmsum toga allt frá einföldum og skemmtilegum í stór og spennandi tivolítæki. Ljóst er að Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er vinsæll áningarstaður fjölskyldna, vinahópa, ferðamanna og skólahópa. Þar eru áform um að efla það starf sem þar er unnið svo öll hafi eitthvað þangað að sækja hvort sem er margs konar afþreyingu eða fróðleik.

Húsakostur hefur verið bágborinn í gegnum árin og aðstaða innandyra til fræðslu og sýninga lítil sem engin.

En nú horfir til betri vegar enda nýtt fræðslu- og vísindahús á teikniborðinu sem samnýta á með frístundaheimili fyrir börn í Laugardalnum.