Svín sem húsdýr kallast alisvín og eru komin af villisvínum. Þau eru klaufdýr, en ekki jórturdýr líkt og önnur klaufdýr garðsins. Þau eru gildvaxin um allan skrokkinn, leggjastutt og með stuttan, þykkan háls. Ennið er flatt, trýnið nokkuð langt og augun fremur lítil. Halinn er lítill og snúinn og feldur lítill. Hárin kallast burst og voru nýtt í tannbursta áður fyrr en í dag helst í alls kyns bursta og pensla. Litur svína er oftast hvítur en einnig eru til dökk og flekkótt svín. Gyltur gjóta að meðaltali 10 til 12 grísum í goti og hafa 14 spena og því komast yfirleitt allir á spena í einu. Eftir fyrsta sólarhringinn er komin regla á hvaða grís á hvaða spena og hver grís sýgur sinn spena eftir það.
