Íslenska sauðkindin hefur verið á Íslandi frá landnámi og líklegast er að hún sé komin af norður-evrópska stuttrófukyninu. Önnur fjárkyn í Evrópu eru með langa rófu. Mörg einkenni íslensku sauðkindarinnar eiga sér hliðstæðu í gamla, norska stuttrófukyninu. Í báðum kynjum koma fyrir litirnir grátt, golsótt, botnótt, svart og mórautt, stutt rófa eða dindill og horn. Sauðkindur eru yfirleitt félagslynd fjölkvænisdýr. Villt sauðfé er gjarnan í litlum hjörðum, færri en tíu, en þó eru dæmi um meira en hundrað kindur saman í hjörð. Hjarðir eru oft kynskiptar þannig að ær og lömb halda saman en hrútar mynda sérstakar hjarðir nema á fengitíma.
